HAMRAR, MIÐVIKUDAGUR 19. JÚNÍ KL. 20.
Fram koma
Ellis Ludwig-Leone, hljóðgervill og píanó
Efnisskrá
Ellis Ludwig-Leone: False We Hope (2022) - False We Hope - Lady of the Dunes - Prodigal Daughter - A House, A Family - Unblessing - How to Resurrect a Loved One's Voice - Welcome Home - Litany (Karen Russel og Carey McHugh)
Ellis Ludwig-Leone: Speech after the Removal of the Larynx (2020) 1 . Strong consonants 2. Sounds and their captors 3. Currents 4. Silence
Söngvasveigur og strengjakvartett
False We Hope (Tálvonir okkar) er söngvasveigur eftir bandaríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone. Lögin eru samin við ljóð eftir Karen Russell og Carey McHugh og urðu til í uppnámi heimsfaraldurs árið 2020. Í fyrra kom út samnefnd hljómplata þar sem Eliza Bagg syngur lögin og tónskáldið leikur á hljóðgervil og píanó ásamt Attacca-strengjakvartettinum. Á plötunni er öðru verki Ellisar, Speech after the Removal of the Larynx (Tal eftir að raddböndin hafa verið fjarlægð), ofið saman við söngvasveiginn og á þessum tónleikum er sami háttur hafður á.
Þetta segir tónskáldið um False We Hope:
Árið 2020, þegar við vorum öll í einangrun heima hjá okkur, þá var undarlegt rof milli hins ógnvænlega utan heimilisins – þar sem sannarlega var dimmt og ótryggt framundan – og svo hversdagslífsins með sínum litlu krísum milli nákominna. Sum okkar voru komin aftur heim í faðm fjölskyldunnar og þá rifjuðust fljótt upp smáárekstrarnir. Það var eins og við værum alltaf að taka stöðuna við kvöldverðarborðið: hver þarf nú mest á stuðningi að halda, hverjum líður illa?
Þessi sönglög eru afurð þessa tíma og samræðna við vini mína Karen og Carey um trúna og fjölskylduböndin, um óljósar rætur tungumálsins og um það að þreyja einmana, ýmist saman eða í einrúmi. Við töluðum um trúna sem býr að baki jafnvel tvístruðum tilraunum okkar til að tala saman — ekki bara trúna á náungann, eða á Guð, heldur trúna á merkingu. Við vildum að textarnir myndu spegla þessa baráttu við að gera okkur skiljanleg og við að vera hvert öðru eitthvað.
Það eru átök í þessum lögum og ótti sem sprettur af því að ferðast um ókunnar lendur. En þarna er líka friðsæld, hugarró sem ritúalið gefur eða hin margbrotna umhyggja fjölskyldunnar, eða hin eilífa þrá okkar eftir tengingu: við annað fólk, við sagnir, við eitthvað sem er stærra en við sjálf. Mér finnst að þarna séu bjargráðin okkar þegar við glímum við öfl sem við höfum ekki stjórn á.
Þegar ég var að semja þetta verk, fannst mér eins og ég lýsti með ljósi á eitthvert ósýnilegt fyrirbæri í myrku herbergi. Það kastaði breytilegum skuggum eftir því sem ljósið færðist til og kom smám saman allt í ljós. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að skapa það með nánum vinum.
Tónleikarnir njóta stuðnings Goethe Institute.