HAMRAR, FIMMTUDAGUR 20. JÚNÍ KL. 20.
Fram koma
Herdís Anna Jónasdóttir, sópran
Thomas Posth, hljómsveitarstjóri
Efnisskrá
Franz Shubert: Vetrarferðin (úts: Thomas Posth og Fynn Großmann)
Gute Nacht Die Wetterfahne Gefror’ne Tränen Erstarrung Der Lindenbaum Wasserflut Auf dem Flusse Rückblick Irrlicht Rast Frühlingstraum Einsamkeit Die Post Der greise Kopf Die Krähe Letzte Hoffnung Im Dorfe Der stürmische Morgen Täuschung Der Wegweiser Das Wirtshaus Mut Die Nebensonnen Der Leiermann
Eins og þú hefur aldrei heyrt hana
Um aldamótin 1800, þegar Franz Schubert (1797–1828) var að slíta barnsskónum, voru sönglög ekki í miklum metum meðal smekkfólks um tónlist. Litið var á þau sem dútl fyrir amatöra, enda voru þau oftast flutt í heimahúsum, sjaldan opinberlega. En fyrstu sönglögin sem komu frá hendi Schuberts (sem þá var aðeins 17 ára), Álfakóngurinn og Gréta við rokkinn, sýndu að hér var komið tónskáld sem hafði burði til þess að færa þetta listform á hærra stig. Á sinni stuttu ævi átti Schubert eftir að semja fleiri hundruð sönglaga og segja má að kórónan á því sköpunarverki hans sé Vetrarferðin, flokkur 24 laga við ljóð eftir þýska skáldið Wilhelm Müller. Þar nær tónskáldið að mála upp einsemd, trega og ljúfsára eftirsjá af slíkri snilld að enginn verður ósnortinn sem heyrir.
Schubert hafði þann sið að flytja lögin sín fyrst fyrir vini sína og þegar hann kynnti þeim Vetrarferðina hefur hann áreiðanlega flutt þeim verkið í heild sinni. En heildarflutningur heyrði annars til undantekninga á 19. öldinni – yfirleitt hljómuðu lögin úr flokknum stök. Það var ekki fyrr en á 20. öld og með tilkomu hljóðritana sem það varð regla að flytja ljóðaflokkinn í heild sinni og áhrifamiklir listamenn eins og Dietrich Fischer-Dieskau og Gerald Moore settu jafnframt viðmið um flutninginn sem tónlistarunnendur og aðrir flytjendur hölluðu sér að. Á síðustu áratugum hafa listamenn tekið að nálgast þetta stórvirki á fjölbreyttari hátt; meðal annars hafa orðið til útgáfur fyrir kammersveitir. Hér í kvöld hljómar alveg ný útsetning sem Thomas Posth og Fynn Großmann gerðu fyrir Orchester im Treppenhaus. Þar er söngkonu fært einsöngshlutverkið, sem annars er yfirleitt sungið af karli, en þó er brugðið á það ráð að skipta þeim hlutum sem beinlínis tjá ást förusveinsins til konu út fyrir hljómsveitarparta eða þýðingu á önnur tungumál eins og arabísku og japönsku, þannig að sjónarhorn verksins breytist lítið eitt. Útsetningin er fyrir 11 manna hljómsveit; strengi, bassaklarínett, rafmagnsgítar, harmoniku, sög og slagverk svo eitthvað sé nefnt.
Tónleikarnir njóta stuðnings Goethe Institute.