Fram koma
Clara Lyon, fiðla Hannah Collins, selló Sæunn Þorsteindóttir, selló Sellósveit hátíðarinnar
Efnisskrá
Francesco Antonio Bonporti Aria cromatica e variata í a-moll
Simon Steen Andersen Study for String Instrument # 1
Eliza Brown Shaked Graces
Maurice Ravel Sónata fyrir fiðlu og selló, M. 73 I. Allegro II. Très vif III. Lent IV. Vif, avec entrain
Antonín Dvořák Skógarkyrrð
Tónlist
Hreyfing – eða dans – er undiralda efnisskrárinnar í kvöld. Upphafsverkið er eftir ítalska prestinn og tónskáldið Francesco Antonio Bonporti (1672–1749), barokkmann sem sótti margt til hirðdansa 17. aldarinnar. Eins og nafnið bendir til byggist Aria cromatica e variata upp á tilbrigðum við einfalt stef í smástígum (krómatískum) skrefum. Þaðan liggja þræðir yfir í verkið Shaked Graces eftir bandaríska tónskáldið Elizu Brown sem tekur skreytinótur barokktónlistarinnar til rannsóknar og endurvinnslu. Hún velur þrjár skreytingar, teygir þær og togar og leggur þær í ýmsum tilbrigðum ofan á hægferðugt undirlag. Á milli þessara verka hljómar svo strengjastúdía eftir Danann Simon Steen Andersen (f. 1976) frá árinu 2007. Þess má geta að það ár stóð til að Simon kæmi til Ísafjarðar til þess að taka þátt í Við Djúpið – hann þurfti að aflýsa á síðustu stundu en það er sérstakt ánægjuefni að í ár hljómi tónverk eftir hann á hátíðinni. Í verkinu dansa hljóðfærin tvö saman eins og einn kroppur, hreyfa sig samferða í sömu átt allan tímann.
Á síðari hluta tónleikanna hverfum við öld aftur í tímann og heyrum sónötu fyrir fiðlu og selló eftir Maurice Ravel (1875–1937), skemmtilegt verk og krefjandi í flutningi. Þar byggist dans hljóðfæranna á því að þau kasta laglínum á milli sín fremur en að vera samferða. Að lokum leggst ró yfir allt þegar Sæunn Þorsteinsdóttir, Hannah Collins, Anthony De Clara og sellónemendur á spunanámskeiði hátíðarinnar leika saman Skógarkyrrð eftir Antonín Dvořák (1841–1904). Það var upphaflega kafli í lagaflokknum Ze Šumavi (Úr Bæheimsskógi) sem Dvořák samdi fyrir fjórhent píanó en útsetti svo fyrir selló og píanó og síðar fyrir selló og hljómsveit. Í kvöld ráða sellóleikararnir sjálfir útfærslunni.