Um listamanninn
Sellóleikarinn Hannah Collins er þekkt fyrir nýsköpun og frumlega tónlistarmiðlun. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir túlkun nútímatónlistar og færir út mörk tónbókmenntanna með því að panta og frumflytja ný verk. Á fyrstu plötu sinni, Resonance Lines sem kom út hjá Sono Luminus útgáfunni, lék hún verk eftir Benjamin Britten og Kaiju Saariaho ásamt nýjum verkum eftir Caroline Shaw og Thomas Kotcheff. Hún hefur unnið mikið með slagverksleikaranum Michael Compitello; þau kalla sig New Morse Code og hafa sérstaklega lagt sig eftir flutningi verka með samfélagslega skírskotun. Árið 2020 hlutu þau Ariel Avant Impact Performance verðlaunin. Auk þess að leika með Decoda er Hannah félagi í kammerhópunum Bach Aria Soloists, A Far Cry og Grossman Ensemble og kemur einnig reglulega fram með barokksveitum.
Hannah lauk BS-prófi í lífverkfræði og stundaði sellónám við Yale-háskóla, Konunglega tónlistarháskólann í Haag og CUNY í New York. Hún kennir sellóleik við tónlistardeild Kansas-háskóla.