Um listamanninn
Sellóleikarinn Sæunn Þorsteinsdóttir kom fyrst fram á Við Djúpið árið 2009 og hefur tengst hátíðinni – og Vestfjörðum – sterkum böndum. Hún hóf ung sellónám í Tónlistarskóla Íslenska Suzukisambandsins áður en hún fluttist til Bandaríkjanna þar sem hún hefur verið búsett síðan. Um sumarsólstöður 2020, í miðjum kórónaveirufaraldri, kom Sæunn hingað vestur og efndi til tónleika í sex kirkjum þar sem hún lék allar sellósvítur Bachs, eina svítu í hverri kirkju. Guðshúsin fylltust af tónleikaþyrstum gestum sem margir fylgdu Sæunni kirkju úr kirkju, úr firði í fjörð, þar til síðasta svítan hljómaði við ysta haf rétt í þann mund sem sólin sleikti hafflötinn. Í framhaldi af þessu sólstöðuævintýri hljóðritaði Sæunn svíturnar og þær koma nú út á hljómdiski undir merkjum bandarísku útgáfunnar Sono Luminus.
Sæunn lauk mastersnámi frá Juilliard tónlistarháskólanum í New York og síðan doktorsprófi frá SUNY Stony Brook. Hún kenndi sellóleik og kammertónlist við Washington-háskóla í Seattle um árabil en hóf í haust störf við Cincinnati College Conservatory í Ohio. Hún hefur á ferli sínum vakið verðskuldaða athygli fyrir innblásinn leik og nýsköpun í efnisvali og hún er einn af stofnendum kammerhópsins Decoda í New York, sem hefur að markmiði að glæða flutning kammertónlistar nýju lífi með skapandi fræðslu og samfélagsþátttöku.
Tónlist
Dagskrá
13:00-15:30
12:15
17:00