Ísafjörður skapar fullkomna umgjörð fyrir hátíðina. Aðstaða til leikahalds er góð en bærinn býður upp á fjölbreytta tónleikastaði. Kennsluaðstaða er til fyrirmyndar og vegalendir stuttar. Gestum hátíðarinnar gefst svo tækifæri til að njóta e instakrar náttúru svæðisins milli tónleika og kennslustunda.
Tónlistarhátíðin og litla vinalega ferðaskrifstofan Cycling Westfjords hafa tekið höndum saman og skipulagt frábæra helgi fyrir gesti hátíðarinnar, frá fimmtudegi til sunnudags.
Til að hnýta saman tónleikadagskrána bjóða hátíðin og ferðaskrifstofan upp á helgarpakka fyrir gesti. Í honum eru ekki einungis tónleikamiðar. Í boði er að slást í för með tónlistarfólkinu í leit að hinni eilífu miðnætursól, nóttina sem líkegt er að finna hana. Stemmingstöframenn kokka upp einstakt sólstöðu matarboð fyrir kaupendur helgarpakkans þar sem sjávarfang er borið á borð beint af grillinu undir líflegri tónlist heilt síðdegi. Þá er hægt að taka daginn snemma og hlaupa með hljóðfæraleikurunum eða draga andann djúpt í hátíðarjóga í gamla íþróttahúsinu við Austurvöll.
Sólstöður á sumri eru fimmtudaginn 20. júní og má segja að dagskrá hátíðarinnar nái þá hámarki. Um kvöldið leikur þýska kammersveitin Orchester im Treppenhaus nýlega útsetningu á Vetrarferð Franz Schuberts fyrir hljómsveit og sópran. Það er Ísfirðingurinn Herdís Anna Jónasdóttir sem syngur einsöngshlutverkið.
Til að skapa rétta stemmingu fyrir vetrarferð á hásumri frumflytur Sæunn Þorsteinsdóttir nýtt verk Veronique Vöku, Neige éternelle (ísl. Eilífur snjór) á hádegistónleikum sama dag.
Föstudagurinn er tileinkaður nýrri tónlist en þar fer mikið fyrir ísfirska tónskáldinu Halldóri Smárasyni. Um kvöldið leikur Cauda Collective þrjú ný strengjatríó og tvo nýlega kvartetta eftir meðlimi Errata tónskáldahópsins en Halldór er einn þeirra. Fyrr sama dag bjóða tvífararnir og vinirnir Halldór og ameríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone upp á hádegistónleika með sönglögum og fleiru þar sem þeir para saman tónsmíðar sínar. Þar sem hádegistónleikarnir duga sennilega ekki til verður framhald síðkvölds í brugghúsinu Dokkunni.
Lokadagur hátíðarinnar er sannkölluð veisla við Djúp fyrir gesti helgarpakkans. Hefst á heimsókn á Listasafn Ísafjarðar og lýkur í lokaveislu hátíðarinnar í sjálfri perlunni í Djúpinu, eyjunni Vigur. Þangað er haldið að afloknum fjölbreyttum lokatónleikum hátíðarinnar.
Sannarlega endurnærandi pakki fyrir líkama og sál.
Innifalið: Tónleikamiðar, ógleymanlegt matarboð, heimsókn á Listasafn Ísafjarðar, ferð á vit miðnætursólar og Lokapartý í Vigur.
Í tengslum við tónlistarhátíðina Við Djúpið verður boðið upp á glæsilega hliðarviðburði. Annar er ógleymanlegt matarboð sem hægt er að kaupa miða inn í. Vinirnir og stemmings-mennirnir Aðalsteinn R. Benediktsson og Sigurgísli Bjarnason, veitingamenn, töfra fram síðdegisveislu föstudaginn 21. júní frá klukkan 13:15 til 17. Gestir mæta við Edinborgarhús og rúta flytur hópinn að veisluborðinu á óþekktum stað í Skutulsfirði. Þar taka frískandi drykkir og forréttir á mótu gestum. Meðan á borðhaldinu stendur njóta þátttakendur gestrisni Alla og Sigurgísla, þeir reiða fram hvern réttinn á fætur öðrum þar sem hráefnið er að stórum hluta úr næsta nágrenni. Til að brjóta veisluna upp mæta tónlistarmenn og slá tóninn fyrir það sem koma skal á tónlistarhátíðinni Við Djúpið.
Innifalið: Matur og drykkur, rúta og tónlistaratriði í nærri 4 klst.
Mæting: Edinborgarhús kl. 13:15