HAMRAR, 17. JÚNÍ KL. 20
Fram koma
Christine Köhler, flauta Alexander Vorontsov, píanó Moritz Wappler, slagverk Sem R. A. Wendt, bassaklarínett
Efnisskrá
Philippe Gaubert: Svíta í A-dúr fyrir flautu og píanó
Claudio Puntin: L’ultimo abraccio
Molly Joyce: Light and Dark, fyrir flautu, marimbu og segulband
HLÉ
Ellis Ludwig-Leone: Free Dive, fyrir flautu og víbrafón
Claude Debussy: Estampes
I. Pagodes II. La soirée dans Grenade III. Jardins sous la pluie
Paul Hindemith: Sónata fyrir bassaklarínett og píanó
Tony Aubin: Le calme de la mer, fyrir flautu, klarínett og píanó.
Fjölbreytt kammertónlist
Á þessum tónleikum myndar seiðandi frönsk tónlist frá síðustu öld ramma utan um spennandi verk núlifandi tónskálda. Philippe Gaubert (1879–1941) var flautuleikari og hljómsveitarstjóri við Parísaróperuna og samdi fjölda tónverka, ekki síst fyrir flautuna. Svíta fyrir flautu og píanó er samin árið 1921 og er í fjórum þáttum. Sá fyrsti ber yfirskriftina Dans hofgyðjanna, annar þáttur er austræn vögguvísa, síðan kemur bátsöngur og verkinu lýkur með fjörlegri glettu í valstakti. Tony Aubin (1907–1981) nam hljómsveitarstjórn hjá Gaubert og var einnig liðtækt tónskáld, ekki síst á sviði kvikmyndatónlistar. Le calme de la mer er þriðji þáttur úr svítu hans fyrir flautu, klarínett og hljómsveit – í kvöld kemur píanóið í stað hljómsveitar – sem kallar fram öldugjálfur og rósemdarstemningu á franskri strönd. Í píanósvítunni Estampes – sem þýðir spor – sótti Claude Debussy (1862–1918) innblástur til framandi tónlistarhefða, bæði indónesískra, eins og heyra má í fyrsta þætti (Pagóður), og arabískra sem setja mark sitt á annan þátt (Kvöld í Granada). Í lokaþættinum framkallast úrhellisrigning í garði í Normandí.
Þýska tónskáldið Paul Hindemith (1895–1963) hafði mikið dálæti á blásturshljóðfærum og lék á ýmis þeirra þótt víólan væri hans aðalhljóðfæri. Honum rann til rifja hve lítið var um bitastæð verk fyrir mörg af þessum hljóðfærum og setti sér fyrir að semja sónötur fyrir hvert og eitt, þar á meðal bassann í klarínettfjölskyldunni. Bassaklarínettið er líka í uppáhaldi hjá Svisslendingnum Claudio Puntin sem er einn af tengdasonum Íslands, kvæntur Gerði Gunnarsdóttur fiðluleikara. L’ultimo abbracio (Hinsta faðmlagið) er að finna á plötu þeirra Ýlir (2001).
Sitthvorumegin við hlé heyrast nýlegar tónsmíðar bandarískra tónskálda. Í Light and Dark nýtir Molly Joyce sér ólíka eiginleika flautunnar og slagverksins til þess að skora hefðbundnar hugmyndir okkar um „ljóst“ og „dökkt“ á hólm. Hugmyndin að Free Dive eftir Ellis Ludwig-Leone kviknaði hér á Ísafirði. Flautuleikarinn Cathrine Gregory pantaði verkið þegar þau tónskáldið skáluðu fyrir vel heppnaðri tónlistarhátíð Við Djúpið fyrir ári. Það tekur um það bil sama tíma í flutningi og sportkafari þarf til að ná niður á botn. Flautan byrjar efst á tónsviði sínu og heldur síðan niður í djúpin þar sem bíða furðufiskar og hafmeyjar …