Fram koma
Colin Levin, barítón
Evan Fein, píanó
Tónlist
Á þessum tónleikum eru norræn sönglög í öndvegi og efnisskráin er nokkurn veginn samhverf. Útverðir hennar eru tvö þekktustu tónskáld Norðurlanda, þeir Edvard Grieg og Jean Sibelius – við fáum að heyra fjögur rómantísk sönglög úr þeirra söfnum. Næst þeim í samlokunni höfum við íslenska tónjöfra 20. aldar, Jórunni Viðar og Jón Leifs. Lög Jóns eru bæði við ljóð Jóhanns Jónssonar en Jórunn tónsetur ljóð tveggja kvenna, þeirra Halldóru B. Björnsson (Kall sat undir kletti) og Jakobínu Sigurðardóttur (Vökuró), auk Gluggans sem Halldór Laxness orti til vinar síns Erlendar í Unuhúsi.
Innan þessa ramma standa svo verk yngstu tónskáldanna. Þar er annars vegar um að ræða píanóleikara kvöldsins, Evan Fein, sem er líka mikilvirkt tónskáld. Hann hefur meðal annars útsett íslensk þjóðlög en einnig samið lagaflokk við texta Þorvaldar Davíðs Kristjánssonar sem hann kallar Ný íslensk þjóðlög. Við fáum að heyra þrjú af þessum lögum og einnig lagið Eggert Snorra við ljóð Steins Steinars. Eftir hlé er komið að glænýju verki Ísfirðingsins Halldórs Smárasonar, Fjallkonuljóði. Halldór nam ungur píanóleik við Tónlistarskóla Ísafjarðar og kom fyrst nálægt hátíðinni Við Djúpið sem nemandi á píanónámskeiðum. Hann snéri aftur til þess að taka þátt í tónsmíðabúðum 2011 og sem píanóleikari ári síðar. Þess má til gamans geta að þá sótti Bandaríkjamaðurinn Ellis Ludwig-Leone tónsmíðabúðir hátíðarinnar og með þeim Halldóri tókst góð vinátta sem hefur meðal annars leitt til ýmissa samstarfsverkefna. Ellis kemur reyndar við sögu hátíðarinnar í ár því hann á verk á lokatónleikunum miðvikudagskvöldið 21. júní. Fjallkonuljóð samdi Halldór að beiðni Colins Levin sem frumflutti það ásamt Evan Fein þann 12. maí sl. í New York. Verkið er samið við samnefnt ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur frá 2018, hárbeitt og feminískt, og skiptist líkt og ljóðið í fimm stutta kafla.
Tenglar
Efnisskrá
Edvard Grieg Og jeg vil ha mig en Hjertenskjær, op. 60, nr. 5 Med en Vandlilje, op. 25, nr. 4
Jórunn Viðar Vökuró Kall sat undir kletti
Jón Leifs Tvö lög, op. 14a I. Máninn líður II. Vögguvísa
Evan Fein Úr Nýjum íslenskum þjóðlögum, op. 9 III. Úti á hafi IX. Álfaborg XI. Sál mín svífur burt
Hlé
Halldór Smárason Fjallkonuljóð
Evan Fein Eggert Snorri
Jórunn Viðar Glugginn
Jean Sibelius Var det en dröm?, op. 37, nr. 4 Flickan kom ifrån sin älsklings möte, op. 37, nr. 5