Um listamanninn
Bandaríska tónskáldið og píanóleikarinn Evan Fein fæddist í Cleveland, Ohio og lauk þar bakkalárgráðu í tónlist en hélt svo til náms við Juilliard-skólann í New York þaðan sem hann lauk meistaragráðu og síðar doktorsprófi. Hann stundaði einnig nám um tíma í Berlín og París og var staðartónskáld kammerhópsins Opéra de Poche í París á árunum 2012–20. Fyrsta ópera hans, The Raven’s Kiss (Koss hrafnsins) frá 2011, er byggð á íslenskum þjóðsögum og var flutt í menningarmiðstöðinni Herðubreið á Seyðisfirði árið 2019. Fjórar óperur hafa fylgt í kjölfarið og óratórían Deborah sem var frumflutt í Lincoln Center í New York árið 2016. Í fyrra hreppti Evan Bandarísku tónskáldaverðlaunin (The American Prize in Composition) fyrir sönglagið Greenport, Long Island: A Socially-Distanced Diva.
Evan er kennari við Juillard-skólann og gaf árið 2020 út kennslubókina Inner Hearing sem þjálfar nemendur í að syngja tónlist beint af blaði. Í sumar kemur út fyrsta hljómplata hans Over/Under þar sem hann leikur með sellóleikaranum Luke Severn.