Efnisskrá
Joseph Haydn Tríó í D-dúr Hob. XV:16 fyrir flautu, selló og píanó
Ellis Ludwig-Leone Past Life (frumfl. á nýrri útsetningu)
George Crumb Vox Balaenae
Tónlist
Bandaríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone (f. 1989) sótti tónskáldasmiðju Við Djúpið árið 2012 og tók þá ástfóstri við Ísafjörð. Hann hefur komið hingað af og til síðan og unnið að ýmsum verkefnum. Verkið Past Life er upphaflega samið fyrir víólu og hörpu en það heyrist hér í nýrri umritun tónskáldsins fyrir flautu, selló og píanó. Ellis segir frá því að kveikjan að verkinu hafi verið reynsla sem hann varð fyrir í Nijmegen í Hollandi þegar hann skaust andartak úr borgarerlinum inn í skuggsæla kapellu. Þar voru fyrir tveir menn að syngja kvöldbænir og það snerti Ellis djúpt að rekast þannig inn í aldagamalt ritúal mitt í hraða nútímaborgarinnar. Past Life er öðrum þræði hugleiðing um sögu rýmisins sem umlykur okkur. Fyrri hluti verksins líkir eftir hávaða götunnar, umferðinni og slitrum úr samræðum sem heyrast þegar fólk hraðar sér áfram. Síðari hlutinn hnitast um hljóðlátt ákall og svar sem fléttast svo saman í laglínu.
Tíminn, aldirnar, eru líka viðfangsefni George Crumb (1929–2022) í Vox Balaenae (Rödd hvalsins), en hér er það jarðsögulegur tími. Verkið er innblásið af söng hnúfubaksins og byggt upp eins og stef með tilbrigðum. Hið milda sjávarstef er kynnt með því að sellóið leikur flaututóna og píanistinn strýkur hörpu flygilsins. Tilbrigðin fimm sem á eftir fylgja heita eftir jarðsögulegum skeiðum: upphafsöld, frumlífsöld, fornlífsöld, miðlífsöld og nýlífsöld. En verkið hefst á inngangi, Vókalísu um upphaf tímans, og það endar á Næturljóði um endalok tímans svo þættirnir eru alls átta. Hljóðfærin eru mögnuð upp, hljóðfæraleikararnir bera grímur til þess að fela mannlegar ásjónur þeirra og mælst er til þess að um sviðið leiki blá neðansjávarbirta. Allt er þetta talsvert ólíkt umbúnaðinum sem ætla má að hafi verið um tónlistina í Eszterházy-höllinni þar sem Joseph Haydn (1732–1809) starfaði lengst af en upphafsverkið á tónleikunum kemur úr smiðju hans.