Um listamanninn
Oliver Rähni fæddist í Kyoto í Japan árið 2003, sonur eistneskra foreldra sem bæði eru tónlistarmenn. Fjölskyldan fluttist síðar til Íslands, fyrst að Laugum í Reykjadal en síðan til Bolungarvíkur. Sköpunargleðin hefur fylgt Oliver alla tíð. Sem pínulítill snáði byrjaði hann að teikna og sinnti þeirri iðju allan liðlangan daginn. Áður en byrjaði að læra á píanó var hann farinn að semja „píanóverk” og eftir að námið hófst varði hann gjarnan löngum stundum við hljóðfærið og samdi lítil tónverk með innblæstri frá stóru meisturunum. Þar með var ný ástríða kviknuð sem lifir enn. Oliver stundaði píanónám við Tónlistarskóla Bolungarvíkur og lauk þaðan framhaldsprófi árið 2022. Hann hefur í tvígang fengið viðurkenningu fyrir framúrskarandi píanóleik á Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna, þar á meðal fyrir flutning eigin tónsmíðar.