Fram kemur
Oliver Rähni, píanó
Tónlist
Á þessum tónleikum fer Oliver Rähni með okkur í ferðalag gegnum tónlistarsöguna frá 18. öld til okkar daga. Við byrjum hjá Bach-fjölskyldunni – og gott að muna í leiðinni að á hádegistónleikunum í Edinborgarhúsinu á morgun, 21. júní, ætlar Sæunn Þorsteinsdóttir að leika einn kafla úr hverri af sellósvítunum sex eftir Johann Sebastian Bach.
Árið 1708 var Bach nýgiftur frænku sinni Mariu Barböru og ungu hjónin fluttust til Weimar þar sem Bach fékk stöðu sem organisti. Hann fór að semja hljómborðsverk af miklum móð og börnin tóku að koma í heiminn, elst þau Katharina Dorothea og Wilhelm Friedemann. Wilhelm litli lærði hjá föður sínum og pabbi hans tileinkaði honum fyrsta nótnahefti sitt með hljómborðsverkum þar sem Wilhelm átti reyndar líka nokkur lög. Wilhelm varð mikill spunameistari en eftir hann liggja líka mörg skrifuð verk þar sem fúgur, fantasíur og pólónesur ber hæst. Pólónesa er tónsmíð sem dregur dám af pólskum þjóðdansi í þrískiptum takti. Þær voru vinsælar í Evrópu allt frá því að franska hirðin tók dansinn upp á 17. öld. Mörg tónskáld reyndu sig við pólónesuna en engum tókst eins vel upp og Pólverjanum Frederik Chopin sem samdi sína fyrstu pólónesu aðeins sjö ára gamall og hélt áfram að reyna sig við formið nánast alla ævi.
Frá Póllandi höldum við áfram í austurveg, til Rússlands, og heyrum meiri músík tengda dansi, nú úr smiðju Pjotrs Tsjajkovskíjs; fyrst tvídans úr ballettinum Þyrnirósu í umritun fyrir píanó og síðan er boðið upp í úkraínskan dans, tropak. Annar Rússi, Aleksandr Skrjabín, á lokaverkið á efnisskránni en áður en að því kemur bregðum við okkur til Íslands og heyrum kafla úr píanósónötu eftir Árna Björnsson og fantasíu sem Oliver sjálfur hefur samið um stef eftir Sigvalda Kaldalóns.
Efnisskrá
Johann Sebastian Bach Tokkata í d-moll, BWV 538 (úts. D. Kabalevskíj)
Wilhelm Friedemann Bach Pólónesa nr. 1 í C-dúr
Carl Maria von Weber Rondó – Perpetuum mobile úr sónötu nr. 1, op. 24
Frédéric Chopin Pólónesa í cís-moll op. 26, nr. 1
Pjotr Tsjajkovskíj Pas de deux úr Þyrnirós (úts. F. Libetta)
Pjotr Tsjajkovskíj Scène dansante: Invitation au trèpak úr 18 verkum op. 72
Árni Björnsson Sónata í d-moll op. 3 I. Allegro con fuoco
Oliver Rähni Fantasía um stef eftir Sigvalda Kaldalóns
Aleksandr Skrjabín Etýða í dís-moll op. 8, nr. 12