HAMRAR, FÖSTUDAGUR 21. JÚNÍ KL. 20.
Fram koma
Hulda Jónsdóttir, fiðla
Sigrún Harðardóttir, fiðla
Þóra Margrét Sveinsdóttir, víóla
Þórdís Gerður Jónsdóttir, selló
Efnisskrá
Bára Gísladóttir otoconia (2017)
Halldór Smárason memories from the sewing room (frumflutningur)
Petter Ekman Palindromes & Ambigrams (frumflutningur)
Haukur Þór Harðarson Fade (frumflutningur)
Finnur Karlsson Ground (2021) I. Stack II. 208 slides III. #32, take two IV. Different Day
Nánar
Halldór Smárason, tónskáld átti samtal um tónleikana við hlaðvarp Listahátíðar í Reykjavík.
Ný íslensk tónlist fyrir strengi
Tónskáldahópurinn Errata býður upp á fimm nýleg verk fyrir strengi, þar af þrjú glæný tríó.
Strengjakvartett úr Cauda Collective leikur.
Errata er listhópur sem samanstendur af tónskáldunum Báru Gísladóttur, Finni Karlssyni, Halldóri Smárasyni, Hauki Þór Harðarsyni og Petter Ekman. Hópurinn var stofnaður árið 2014, en markmið hans er að skapa vettvang fyrir ung tónskáld til að koma sér og sinni list á framfæri sem víðast, og stuðla að nýjum og frumlegum leiðum til tónsköpunar og dreifingar.
Til gamans má geta þess að þrjú tónskáldanna, Halldór, Petter og Finnur, tóku allir þátt í tónskáldastofu hátíðarinnar þegar þeir voru að stíga sín fyrstu skref sem tónskáld.
Bára
Otoconia var skrifað 2017 sem pöntun frá Strokkvartettinum Sigga. Verkið var valið til þátttöku fyrir íslands hönd á International Rostrum of Composers sama ár. Verkið vinnur með bjögun á jafnvægi sem valdið er af eftirfarandi ástandi:
"small crystals of calcium carbonate in the saccule and utricle of the ear that under the influence of acceleration in a straight line cause stimulation of the hair cells by their movement relative to the gelatinous supporting substrate containing the embedded cilia of the hair cells." (otoconia, læknisfræðileg skilgreining á ensku).
Halldór
memories from the sewing room, eða minningar úr saumastofunni, er samið í minningu um Siggu Ragnars, píanókennarann minn til tólf ára sem um árabil var skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Sumar af mínum sterkustu minningum af Siggu tengjast því þegar hún límdi saman nótnablöð fyrir mig í miklu óðagoti rétt fyrir píanótíma. Aðalhráefnið í verkinu er lag sem ég tengdi sterkt við Siggu sem er svo brotið upp með ýmsum strokóhljóðum. Þannig er verkið flutt og á sama tíma eru nótur verksins límdar saman með hljóðum.
Verkið er skrifað með hefðbundnum nótum auk nokkurra grafískra mynda eftir Bert Yarborough.
Finnur
Ground er strengjakvartett í fjórum köflum. Verkið var skrifað árið 2021 fyrir Strokkvartettinn Sigga með stuðningi frá Tónskáldasjóði STEFs og RÚV.
Verkið er bundið saman með litlu stefi sem birtist misgreinilega í köflunum. Þriðji kafli verksins #32, take two byggir á kafla úr einsöngsverkinu “Fjögur lög með millispilum” sem ég skrifaði árið 2018 fyrir söngkonuna Þórgunni Önnu Örnólfsdóttur við ljóð númer 32 úr Heimkynnum við sjó eftir Hannes Pétursson.
Haukur
Í lágværri könnun á loftkenndum tónblæ leikur og andar tríóið sem eitt hljóðfæri og sameinast í eitt hljóð.
Petter
Ambígram er samsetning stafbrigða (stafa, númera, tákna eða annarra forma) sem getur gefið mismunandi merkingu eftir því hvernig á það er horft. Flest ambígröm eru sjónrænar samhverfur sem styðjast við einhverskonar samhverfu.
Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Þeir hlutu sérstakan styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.