Fram koma
Catherine Gregory, flauta
David Kaplan, píanó
Tónlistin
Flautuverkin á þessum tónleikum tengjast óvænt í gegnum tignarleg fjöll. Þau umlykja okkur hér á Ísafirði þar sem Jónas Tómasson tónskáld (f. 1946) var um árabil burðarás í tónlistarlífinu. Hann hafði lengi vel umsjón með tónleikahaldi Tónlistarfélagsins, kenndi flautuleik, tónfræði og tónlistarsögu við Tónlistarskólann og stjórnaði einnig Sunnukórnum um tíma auk þess að sinna tónsmíðum. Þrjú sólarlög fyrir flautu og píanó samdi hann árið 1997 í tilefni af níræðisafmæli Guðmundar Inga Kristjánssonar skálds og skólastjóra frá Kirkjubóli í Önundarfirði.
Sergej Prokofíev (1891–1953) hafði líka fagra fjallasýn þegar hann vann að flautusónötu sinni, því hann var á hálfgerðum flótta frá Moskvu á stríðsárunum seinni og fann sér athvarf í borginni Alma-Ata í Kasakstan þar sem sónatan varð til á árinu 1943. Verk Gabrielu Lenu Frank (f. 1972) heitir aftur á móti eftir Andesfjöllunum í Rómönsku Ameríku og er innblásið af þjóðlegri tónlist frá Bólivíu og Perú, þaðan sem móðir Gabrielu er. Fyrsti og þriðji þáttur, Quena og Pinkillo, eru nefndir eftir sérstökum gerðum af flautum meðan annar og fjórði þáttur sækja í rytmískar hefðir. Síðasti þátturinn er stutt tónaljóð um eyjarnar í Titicaca-vatni „þar sem stjörnurnar eru svo bjartar að þær valda geislandi, dulúðugum skuggum“ eins og tónskáldið tekur til orða.
En við hefjum tónleikana á láglendi, nánar tiltekið í Parísarborg, því í upphafi hljóma tveir þættir úr einni þekktustu fiðlusónötu allra tíma – í umritun fyrir flautu og píanó. César Franck (1822–1890) samdi sónötuna fyrir belgíska fiðluleikarann Eugène Ysaÿe og gaf honum og verðandi konu hans í brúðargjöf í september 1886. Það var franski flautuleikarinn Jean-Pierre Rampal sem umritaði verkið.
Tenglar
Efnisskrá
César Franck Sónata í A-dúr (umritun fyrir flautu og píanó) I. Allegretto ben moderato II. Allegro molto
Gabriela Lena Frank Five Andean Improvisations I. Quena II. Ritmo del altiplano III. Pinkillo IV. Chuta V. Sombras
Jónas Tómasson Þrjú sólarlög
Sergej Prokofíev Sónata fyrir flautu og píanó í D-dúr, op. 94 I. Moderato II. Scherzo III. Andante IV. Allegro con brio